Meira rafmagn fer í að knýja viðskipti með rafmyntina bitcoin en færslur allra fjármálastofnana heims samanlagt. Árleg raforkunotkun við bitcoin er á við Sviss og magnið af gróðurhúsalofttegundum sem losnar við hana er á við bandaríska borg.
Gífurlegt rafmagn þarf til að knýja heilu gagnaverin þar sem öflugar tölvur leggja nótt við nýtan dag við að grafa eftir rafmyntinni bitcoin. Þeir sem eiga tölvurnar fá bitcoin fyrir að knýja viðskipti með rafmyntina.
Nýtt veftól Cambridge-háskóla á Bretlandi leiðir í ljós að bitcoin-tölvurnar noti tæpar um sjö gígavött af rafmagni, um 0,21% af heildarraforkuframleiðslu heimsins. Það er sambærilegt við ársnotkun Svisslendinga á rafmagni, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Alex de Vries, sérfræðingur í orkuþörf bitcoin frá endurskoðunarfyrirtækinu PwC, segir að bitcoin-gröfturinn valdi losun á um 22 milljón tonnum af koltvísýringi á ári. Það sé sambærilegt við losun íbúa Kansas-borgar í Bandaríkjunum þar sem um hálf milljóna manna býr.
Að sögn de Vries er bitcoin orkufrekasti gjaldmiðill heims. Fjármálahreyfingar með bitcoin séu innan við hundrað milljónir á einu ári, borið saman við um 500 milljarða færslna í hefðbundna fjármálakerfi heimsins. Engu að síður noti bitcoin meira rafmagn en allir bankar heimsins samanlagt.
Raforkunotkun fyrir Bitcoin á við Sviss
