Í skoðunarpistli sínum segir Sigríður Margrét að lyfjakostnaður hafi lækkað um helming frá árinu 2003 og að verð hér á landi sé sambærilegt við hin Norðurlöndin. Þetta sé staðfest í nýrri skýrslu Hagfræðastofnunar Háskóla Íslands um lyfsölu á Íslandi. Enn sé þó hægt að gera betur.
„Um það bil helmingur lyfja sem seld eru út úr apótekum eru ódýrasti mögulegi valkosturinn, sem þýðir líka að helmingurinn er það ekki, sagði Sigríður. Þar felist tækifærið til þess að lækka lyfjaverð frekar. Til þess muni Lyfja hefja fræðsluátak um samheitalyf. Samheitalyf eru endurgerðir lyfja sem komin eru úr „vernd“ og innihalda sama virka efnið en kosta yfirleitt minna en frumgerðin.
„Við ætlum að taka þetta verkefni alvarlega. Í skýrslunni segir að í öðrum löndum sé hlutfall seldra lyfja sem eru ódýrasti valkostur allt að 75%. Þarna er tækifæri til að lækka lyfjaverð.
Lyf eru í hæsta þrepinu, 24%. Á sumum Norðurlöndunum bera lyf ekki virðisauka. Við á Íslandi erum að borga sem neytendur helmingi hærra verð en almennt innan annarra iðnríkja. Mér finnst við ættum að hafa metnað til þess að gera betur, segir Sigríður.
Sigríður segir að í skýrslunni komi fram að á Íslandi borgi neytendur um 60% af lyfjakostnaði, hið opinbera borgi því um 40%, annað sé uppi á teningnum víðar í OECD-ríkjunum.
Sigríður skorar á íslenska ríkið og sitt eigið fyrirtæki og vill sjá lyfjaverð lækkað. Sigríður skorar á ríkið að breyta greiðsluþátttöku kerfinu til samræmis við önnur OECD-lönd. Slíkt geti kostað ríkið tvo til þrjá milljarða árlega en myndi skila sér í auknum lífsgæðum landsmanna.