Lífið

Netflix fjarlægir umdeilt atriði úr 13 Reasons Why

Andri Eysteinsson skrifar
Katherine Langford leikur hlutverk Hönnuh Baker
Katherine Langford leikur hlutverk Hönnuh Baker Getty/Greg DeGuire
Streymisveitan Netflix hefur ákveðið að fjarlæga atriði úr unglinga-dramaþáttunum 13 Reasons Why, tveimur árum eftir að þættirnir rötuðu fyrst inn á Netflix. ITV greinir frá.

Atriðið sem um ræðir sýnir eina aðalpersónu þáttanna, Hönnuh Baker, svipta sig lífi. Um er að ræða atriði úr fyrstu þáttaröðinni sem kom út árið 2017.

Þættirnir hafa verið gagnrýndir og sagðir hafa upphafið sjálfsvíg og sjálfsskaða unglinga. Í yfirlýsingu frá Netflix, sem birtist nú rétt áður en þriðja þáttaröðin er gefin út, segir. „Við höfum heyrt frá fjölmörgum að þættirnir hafi hvatt unglinga til þess að taka umræðuna um erfið málefni eins og sjálfsvíg og þunglyndi. Margir hafa leitað sér hjálpar vegna þáttanna. En áður en við gefum út þriðju þáttaröðina höfum við hugsað um gagnrýnina og höfum því í samráði við lækna og skapara þáttanna ákveðið að taka atriðið þar sem Hannah sviptir sig lífi úr umferð.“

Í stað atriðisins er komin útgáfa þar sem Hannah sést fylgjast með viðbrögðum foreldra sinna við sjálfsvígi hennar.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.