Skoðun

Að taka erfiðar ákvarðanir án þess að selja sál sína

Kristín Völundardóttir skrifar
Útlendingastofnun hefur það hlutverk, ásamt fleiri stjórnvöldum, að veita þeim einstaklingum vernd sem á henni þurfa að halda en að sama skapi að synja þeim sem ekki þurfa á henni að halda. Í þeim tilgangi hefur löggjafinn sett stofnuninni og starfsfólki hennar reglur til þess að meta þörfina í hverju og einu máli.

Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hefur stofnunin veitt 111 einstaklingum vernd hér á Íslandi þar sem þeir voru taldir þurfa á vernd að halda. Á sama tíma var 118 einstaklingum synjað um vernd, 99 fengu ákvörðun um endursendingu til annars aðildarríkis Dyflinnarsamstarfsins og 88 var synjað um efnislega meðferð þar sem þeir höfðu þegar fengið vernd í öðru Evrópuríki. Alls hafa svo 84 einstaklingar dregið umsóknir sínar til baka.

Einstaklingar sem sækja um vernd hér á landi eru eins misjafnir og þeir eru margir. Auðvelt er að finna til meiri samúðar með sumum en öðrum og stundum er það þannig að þeir sem vekja minnsta samúð eru þeir sem þurfa mest á verndinni að halda. Mikil áhersla er lögð á það hjá Útlendingastofnun að öll mál séu unnin af hlutleysi svo að skoðanir og tilfinningar starfsmanna eða samfélagsins hafi ekki ósanngjörn áhrif á niðurstöður og þörfin á vernd sé metin á grundvelli staðreynda.

Samúð og getan til þess að setja sig í spor annarra eru mikilvægir eiginleikar hvers opinbers starfsmanns en á sama tíma þurfa allar ákvarðanir sem teknar eru að gæta jafnræðis og þjóna þeim tilgangi sem löggjafinn mælir fyrir um. Í tilfelli Útlendingastofnunar er sá tilgangur skýr: að veita vernd þeim sem hana þurfa. Hvorki Útlendingastofnun né nokkur starfsmaður hennar er hafinn yfir gagnrýni en sálir starfsmanna eða vilji þeirra til þess að taka ákvarðanir byggðar á þörf þeirra sem í hlut eiga verða ekki seld – hvorki fyrir gott staffapartí né velþóknun pistlahöfunda.

Höfundur er forstjóri Útlendingastofnunar.


Tengdar fréttir

Sálin seld fyrir góð staffapartí

Það er sérkennilegt þetta fólk sem vinnur hjá Útlendingastofnun. Hvernig er hægt að vakna á morgnana, bursta tennurnar, kyssa börnin, fara í vinnuna og gerast sálarlaus djöfull?




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×