Íbúar í Kópavogi hafa tekið eftir að Kópavogslækur verður reglulega hvítur á lit og hafa kenningar verið uppi um að málning komist í hann, mögulega frá fyrirtækjum í kring.
Páll Stefánsson, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, segir að síðast hafi borist tilkynning um mengun í Kópavogslæk á laugardagskvöld. Þá var mengunin ofarlega í læknum og kom sennilega frá Reykjavík en algengast sé að mengunin sé neðar í honum.
Eftirlitið hafa rökstudda kenningu um að mengunin tengist að stærstum hluta byggingarframkvæmdum í Kópavogsdal, fyrir ofan Smáralind og á ÍR-svæðinu í Breiðholti í Reykjavík.
„Við tengjum þetta við þessar framkvæmdir. Annars vegar þegar menn eru að dæla upp úr húsgrunnum eða eru í steypuvinnu, múrvinnu, þá flæðir vatnið yfir í drenlagnirnar sem opnast inn í lækinn,“ segir hann.
Mengun af þessu tagi sjáist í öllum lækjum á svæði heilbrigðiseftirlitsins en þetta sumarið sé Kópavogslækur undir langmestu álagi.

Engin hollusta fyrir lækinn
Í sumum tilfellum telur Páll að mengunin komi frá því að menn þvoi málningartæki, sprautur og rúllur niður í drenið frekar en klóakið. Í langflestum tilfellum sé mengunin þó jarðefni frá byggingarframkvæmdunum.„Þetta er engin hollusta fyrir lækinn og þetta sest til í honum en þetta er ekki eins skaðlegt og gæti verið eins og í þeim tilvikum sem við fáum olíumálningu eða olíuleka í götum eða þegar menn eru að þvo bíla sína upp úr tjöruleysiefnum úti í götu,“ segir hann.
Einfalda lausn á vandanum segir Páll vera að tengja drenið ekki við læki heldur setja það í skólp til sveitarfélaganna
„Vandinn við þá lausn er að það þýðir að lækirnir bara þorna upp á þurrkatímum og það er enn skaðlegra fyrir lækina,“ segir hann.
Gatnamálastjóri í Kópavogi hafi ítrekað tilmæli til byggingarverktaka að gæta þess að losa ekki úrgang í drenkerfið heldur í klóakið. Það geti þó oft verið erfitt því í steypuvinnu leki vatn gjarnan út á götu og niður í niðurföll.
Páll skorar á fólk að leiða hugann að því að niðurfall í götum leiði út í lækina. Úrgangsefnum eigi frekar að veita út í skólp þar sem þau þynnast fljótt út. Spilliefni eins og olíumálningu eigi alltaf að skila í efnamóttökuna eða til Sorpu.
