Félag atvinnurekenda hefur sent Samkeppniseftirlitinu erindi og farið fram á að eftirlitið taki til skoðunar „bæði háttsemi afurðastöðva, sem leitt hefur til fyrirsjáanlegs skorts á lambahryggjum í verslunum, og viðbrögð stjórnvalda við fyrirsjáanlegum skorti.“
Ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara leggur til að úthlutað verði opnum tollkvótum á lambahryggjum til að bregðast við skorti á hryggjum í verslunum hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er málið ekki komið á borð ráðherra en nefndin hefur sent drög að tillögum til hagsmunaaðila.
Sjá einnig: Undanþága vegna innflutnings á lambakjöti veitt
Í tilkynningu á vef Félags atvinnurekenda er þess getið að „yfirvofandi skortur eigi ekki rætur sínar að rekja til óvenjumikillar neyslu landsmanna á lambakjöti eða framleiðslubrests, heldur til stórtæks útflutnings afurðastöðva á lambakjöti til útlanda á verði sem er mun lægra en íslenskum verslunum stendur til boða.“
Útflutningurinn hafi þannig skapað skort á lambakjöti með tilheyrandi verðhækkun í innlendum verslunum. Það hafi orðið neytendum til tjóns. „Yfirvofandi skortur hefur verið ljós í marga mánuði enda barst [atvinnuvega]ráðuneytinu beiðni um tímabundinn innflutningskvóta í apríl á þessu ári frá innflutningsaðilum en ekkert var aðhafst fyrr en nú.“
Nánar má fræðast um erindi Félags atvinnurekenda til Samkeppniseftirlitsins á vef félagsins.
