Bryer Schmegelsky og Kam McLeod, 18 og 19 ára, eru taldir hafa myrt Lucas Fowler og Chynna Deese, par á þrítugsaldri sem var á ferðalagi um Kanada, í British Columbia í síðustu viku. Þeir hafa þó enn ekki verið ákærðir í tengslum við málið. Leit hefur staðið yfir að ungu mönnunum síðustu daga en það var ekki fyrr en í fyrradag sem lögregla tilkynnti að þeir væru grunaðir um aðild að morðunum.
Sjá einnig: Uggandi yfir mögulegri tengingu milli morðanna
Fjórum dögum eftir að lík Fowler og Deese fundust við afskekktan þjóðveg fannst lík eldri karlmanns við sama veg. Lögregla hefur nú borið kennsl á líkið en maðurinn hét Leonard Dyck og var frá kanadísku borginni Vancouver. Bíll Schmegelsky og McLeod fannst skammt frá líkfundarstaðnum. Kveikt hafði verið í bílnum og hann brunnið til kaldra kola. Schmegelsky og McLeod hafa nú verið ákærðir fyrir morðið á Dyck.

Alan Schmegelsky, faðir Bryers Schmegelsky, ræddi mál sonar síns við fjölmiðla í Kanada í gær. Þar sagði hann Bryer glíma við „afar alvarlegan sársauka“. Þá óttaðist hann að leit lögreglu að drengjunum myndi lykta með „kúlnahríð“, og þar með dauða sonarins.
„Hann vill að sársaukanum linni,“ sagði Alan grátklökkur. Viðtal við hann má sjá í spilaranum hér að neðan.
Nasistafáni og hnífur
Schmegelsky og McLeod eru æskuvinir og ólust upp í bænum Port Alberni á Vancouver-eyju. Þeir hófu ferðalag sitt þann 12. júlí og hugðust aka til Yukon í leit að vinnu.Í gær birti kanadíska dagblaðið The Globe and Mail myndir af Schmegelsky, þar sem hann sést með gasgrímu fyrir andlitinu og aðra þar sem hann heldur á riffli, íklæddur hergalla. Þriðja myndin sýnir hníf og fána merkta tákni Nasista en báðir munir eru sagðir í eigu Schmegelsky.
New: Photos believed to be sent by Bryer Schmegelsky, one of the two homicide suspects, to another user on a video game network https://t.co/pguPDVereZ pic.twitter.com/vvCa9ygjnJ
— Andrea Woo | 鄔瑞楓 (@AndreaWoo) July 24, 2019