Í tilkynningu frá Stúdentaráði segir að umsögnin hafi á fundi ráðsins verið einróma samþykkt. Stúdentaráð gagnrýnir í umsögninni hækkun vaxta, afnámi vaxtahámarks og breytilegum vöxtum sem boðaðir eru í frumvarpinu.
Stúdentaráð telur að innleiðing námsstyrkjanna sé stórt skref í rétta átt en óvissan sem námsmenn búa við leysist ekki ef ný lög kalla á frekari kröfugerð og hagsmunabaráttu af hálfu hagsmunasamtaka þeirra.
Ráðið segir mikilvægustu kjarabót frumvarpsins vera 30% niðurfellingu á höfuðstól námslána ef stúdent klárar nám á tilgreindum tíma. Markmiði frumvarpsins um hvata fyrir námsmenn til að klára á réttum tíma verður ekki náð nema það sé öruggt að stúdentar geti framfleytt sér á meðan á námi stendur. Því vill ráðið að ráðist sé í endurskoðun framfærslulána og grunnframfærslu en ekki er farið fram á slíkt í frumvarpsdrögum.
Frumvarp um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna er nú í samráðsgátt stjórnvalda og er opið fyrir umsagnir til níunda ágúst næstkomandi.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið stendur að baki frumvarpinu og sagði menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, í skoðanagrein sem birtist í Fréttablaðinu, að með frumvarpinu yrðu gerðar róttækar breytingar á námslánakerfinu og að stuðningur við barnafólk yrði sérstaklega aukinn.
Lesa má ályktun Stúdentaráðs í færslunni hér að neðan en umsögnina í heild sinni má lesa í samráðsgáttinni.