Fótbolti

Zlatan stóð við stóru orðin og skoraði fullkomna þrennu | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan er 16 marka maður á tímabilinu.
Zlatan er 16 marka maður á tímabilinu. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic skoraði þrennu þegar Los Angeles Galaxy vann Los Angeles FC, 3-2, í grannaslag í MLS-deildinni í nótt.

Zlatan talaði digurbarklega í aðdraganda leiksins og var lítt hrifinn af því þegar honum var líkt við Carlos Vela, leikmann Los Angeles.

Eins og svo oft áður stóð Zlatan við stóru orðin og skoraði „fullkomna“ þrennu í leiknum; með hægri og vinstri fæti og skalla. 

Vela kom Los Angeles yfir með marki úr vítaspyrnu á 4. mínútu. Fjórum mínútum síðar jafnaði Zlatan með glæsilegu marki. Svíinn lyfti þá boltanum yfir varnarmann gestanna og skoraði svo með góðu skoti.

Á 56. mínútu skoraði Zlatan sitt annað mark með skalla eftir fyrirgjöf frá Diego Musetti. Á 70. mínútu skoraði Zlatan svo sitt þriðja mark með vinstri fótar skoti fyrir utan teig. Mörkin hans má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan.





Vela minnkaði muninn í 3-2 þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma en nær komst Los Angeles ekki. Vela er markahæstur í deildinni með 20 mörk. Zlatan kemur næstur með 16 mörk.

Þrátt fyrir tapið er Los Angeles enn á toppi Vesturdeildarinnar. LA Galaxy er í 2. sætinu, níu stigum á eftir grönnum sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×