Innlent

Farbann yfir grunuðum Oxycontin-smyglara framlengt

Birgir Olgeirsson skrifar
Farbannið rennur út 26. ágúst næstkomandi.
Farbannið rennur út 26. ágúst næstkomandi. Vísir/Jóik
Héraðsdómur Reykjaness hefur fallist á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um að framlengja farbann yfir konu sem var tekin með sjö þúsund Oxycontin-töflur við komuna til landsins í apríl síðastliðnum frá Spáni.

Ólafur Helgi Kjartansson staðfestir þetta í samtali við Vísi en farbannið er framlengt um fjórar vikur, eða til 26. ágúst.

Konan, sem búsett er utan landsteinanna en á lögheimili hér á landi, kom hingað til lands með flugi frá Alicante á Spáni þann 19. apríl. Talið er að lyfin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi.

Götuvirði taflnanna er talið geta numið um 50 milljónum króna.

Í úrskurði Landsréttar vegna málsins fyrr í mánuðinum, þar sem konan var úrskurðuð í farbann til 26. júlí, kom fram að rannsókn málsins væri nærri því lokið og málið yrði innan skamms sent til héraðssaksóknara.

Ólafur Helgi segist búast við að lögreglunni takist að leysa úr þeim viðfangsefnum sem bíða vegna rannsóknar málsins fljótlega en hann segir mikið annríki hafa verið hjá embættinu undanfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×