Það tók Red Bull liðið ekki nema 1,88 sekúndu að skipta um öll fjögur dekkin undir bíl Max Verstappen í þýska kappakstrinum um helgina.
Williams átti metið ásamt Red Bull fyrir breska kappaksturinn fyrir tveimur vikum. Þá stóð það í 1,92 sekúndum en Red Bull liðið náði að skipta um dekkin á bíl Pierre Gasly á 1,91 sekúndu á Silverstone.
Í þetta skiptið varð bætingin ekki bara 0,01 sekúnda, heldur heilar 0,03 er liðinu tókst að skipta um öll fjögur dekkin hjá Verstappen á 1,88 sekúndu. Tíminn er mældur frá því bíllinn stoppar og þangað til hann er kominn af stað aftur.
Þetta verður að teljast magnaður árangur, sérstaklega þar sem mikið kaos var á þjónustusvæðinu í rigningunni á Hockenheim. Til að mynda fóru Red Bull bílarnir alls níu sinnum inn á þjónustusvæðið á sunnudaginn.
Formúla 1