Lífið

Guðni mælir ekki með Mustang

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setur upp sólgleraugu þegar hann stillir sér upp við hlið Mustang-bíls.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setur upp sólgleraugu þegar hann stillir sér upp við hlið Mustang-bíls. fréttablaðið/ernir
Meðlimir Mustang-klúbbsins heimsóttu í gær Bessastaði þar sem fornminjar voru skoðaðar ásamt gömlum forsetabílum. Steinþór Jónasson, formaður Mustang-klúbbsins segir í samtali við fréttastofu Vísis virkilega gaman að hafa fengið að koma að Bessastöðum og heimsóknina hafa verið mikla upplifun fyrir marga.

Vikulega hittast meðlimir Mustang-klúbbsins á hinum ýmsu stöðum í Reykjavík og eru nokkur hundruð einstaklingar skráðir í klúbbinn. Þó mæti ekki svo margir á fundina en í gær keyrðu 36 bílar úr Hafnarfirði og upp á Bessastaði.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók á móti ökuþórunum og hafði hann á orði við blaðamenn Fréttablaðsins sem voru á staðnum að hann gæti ekki mælt með því að allir Íslendingar eignuðust Mustang bíla af umhverfisástæðum en þeir væru þó hið fínasta áhugamál.

Tæplega níutíu manns tóku þátt í viðburðinum og voru þarna heilu fjölskyldurnar. Steinþór segir vel hafi verið tekið á móti hópnum og hafi verið einstaklega gaman að skoða fornminjarnar og gömlu forsetabílana. Þar hafi Packard bíll og Cadillac verið til sýnis.

„Mustang bílarnir sem voru þarna í gær voru allt frá 1966 árgerð upp í 2013 árgerð. En hérna á Íslandi er til bíll frá 2017,“ segir Steinþór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×