Leikmenn og dómarar í Pepsi Max deildar karla og öðrum deildum á Íslandi verða að passa sig á einu í leikjum kvöldsins. Það er búið að banna eitt sem sum knattspyrnulið voru farnir að nýta sér í nýju knattspyrnureglunum.
Alþjóðanefnd Knattspyrnusambanda hefur gefið út nánari fyrirmæli um framkvæmd markspyrnu eftir að sumir fóru að nýta sér nýjar reglur til að koma boltanum á auðveldan hátt í hendur markvarðar síns.
Knattspyrnusamband Íslands segir frá þessu á heimasíðu sinni.
Sérfræðingar Alþjóðanefndar Knattspyrnusambanda (IFAB) eru ekki sammála því hvort þetta sé innan marka knattspyrnulaganna og mun málið vera skoðað betur á næstunni.
Á meðan ákvörðun hefur ekki verið tekin er óheimilt að framkvæma markspyrnu á þann hátt að markvörður vippi boltanum til samherja sem sendir til baka með höfði, brjósti hné eða læri á markvörðinn. Í því tilfelli ber að endurtaka markspyrnuna.
FIFA og IFAB er að skoða málið betur og ljóst er að innan skamms tíma munu koma frekari fyrirmæli um þessa framkvæmd.
