Skoðun

Frá degi til dags

Sighvatur Arnmundsson skrifar

Óvinsælt hlutskipti

Þau Haraldur Benediktsson og Steinunn Þóra Árnadóttir hafa ekki verið öfundsverð af hlutskipti sínu sem sjöundi og áttundi varaforsetar Alþingis. Þegar kom að því að fjalla um Klaustursmálið reyndist öll forsætisnefnd þingsins vanhæf vegna opinberra ummæla sinna um málið. Það kom því í hlut Haraldar og Steinunnar Þóru að fjalla um málið og má segja að það hafi hangið yfir þeim frá því að þau voru skipuð þann 24. janúar. Það mætti alveg hugsa sér ýmsar betri leiðir til að eyða tímanum. Hér eftir hljóta þingmenn að keppast við að tjá sig opinberlega um leiðindamál til að sitja ekki í svona súpu.

Varla pólitík

En það var ekki bara í forsætisnefnd sem vandræði sköpuðust. Tveir af þremur nefndarmönnum í siðanefnd Alþingis sögðu sig úr henni áður en umfjöllun um Klaustursmálið hófst. Síðar var þeim þriðja líka skipt út. Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra fyrir Framsóknarflokkinn, kom inn sem varamaður. En þegar á reyndi treysti hann sér ekki til að taka þátt í umfjöllun um málið vegna fyrri stjórnmálaþátttöku sinnar. Það er spurning hvernig mál Jón hafi ímyndað sér að lentu á borði nefndarinnar þegar hann samþykkti að taka sæti varamanns. Allavega ekkert sem tengist pólitík.






Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×