Innlent

Hjólreiðamaður kom stökkvandi inn á gangbraut fyrir bíl í Kópavogi

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglumaður segir að svo virðist sem hjólreiðamaðurinn hafi ekki slasast alvarlega.
Lögreglumaður segir að svo virðist sem hjólreiðamaðurinn hafi ekki slasast alvarlega.

„Manni brá svolítið þegar maður sá þetta,“ segir Heimir Ríkarðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni í Kópavogi, um myndband af umferðarslysi sem átti sér stað á Urðarbraut í Kópavogi í síðustu viku. Þar kom hjólreiðamaður svífandi á miklum hraða inn á gangbraut við hringtorg með þeim afleiðingum að hann hafnaði beint framan á bíl. Mbl.is greindi fyrst frá.

Heimir segir að svo virðist vera sem hjólreiðamaðurinn hafi ekki slasast alvarlega. „Þetta fór sannarlega betur en á horfðist,“ segir Heimir.

Hann segir nokkuð óumdeilt hvað gerðist þarna miðað við myndefnið en lögreglan mætti á vettvang og ræddi við hjólreiðamanninn og ökumann bílsins. Hjólreiðamaðurinn hafði komið á miklum hraða niður brekku og kom á stökki fram hjá tveimur runnum inn á gangbrautina.

Spurður hvort hjólreiðamaðurinn eða ökumaðurinn sé í rétt segir Heimir það ekki hans að dæma. Það eigi eftir að úrskurða það, bæði út frá tryggingafélögunum og með tilliti til umferðarlaga. „Hann sýnir ekki mikla aðgæslu að því er virðist,“ segir Heimir.

Bæði ökumaðurinn og hjólreiðamaðurinn voru allsgáðir þegar þetta átti sér stað að sögn Heimis.

Klippa: Hjólreiðamaður kom stökkvandi á bíl við gangbraut í Kópavogi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×