Innlent

Fluttur á slysadeild eftir líkamsárás á skemmtistað í Kópavogi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þá var lögreglu tilkynnt um hópslagsmál í miðbænum í nótt.
Þá var lögreglu tilkynnt um hópslagsmál í miðbænum í nótt. vísir/vilhelm
Einn var handtekinn vegna líkamsárásar á skemmtistað í Kópavogi um klukkan hálf eitt í gærkvöldi. Árásarmaðurinn var vistaður í fangaklefa en þolandi fluttur með sjúkrabíl á slysadeild til aðhlynningar, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Samtals voru 75 mál skráð hjá lögreglu frá því klukkan fimm í gær og þangað til fimm í morgun.

Þá var tilkynnt um fimm einstaklinga að slást í miðbænum um klukkan þrjú í nótt. Slagsmálin voru yfirstaðin þegar lögregla kom á vettvang.

Um klukkan ellefu í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um mann sem var að klifra upp á svalir og fór inn í íbúð í fjölbýlishúsi í Hlíðunum. Ekki reyndist um innbrotsþjóf að ræða eins og talið var í fyrstu heldur hafði húsráðandi læst sig úti.

Skömmu eftir miðnætti var tilkynnt um ölvaðan mann í miðbænum sem stokkið hafði upp á bifreið og hoppað á þaki hennar svo tjón hlaust af. Maðurinn var farinn þegar lögregla kom á vettvang.

Þá tilkynnti húseigandi í Garðabæ ummerki um tilraun til innbrots í hús sitt til lögreglu. Talið er að brotist hafi verið inn á meðan húseigandinn var á ferðalagi.

Á ellefta tímanum var tilkynnt um innbrot í íbúð í fjölbýlishúsi í Garðabæ. Um klukkan hálf átta var svo tilkynnt um eld í ruslagámi í Breiðholti. Slökkvilið kom á vettvang og slökkti eldinn.

Á sjötta tímanum varð þriggja bíla árekstur í Grafarvogi. Ekki urðu alvarleg slys á fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×