Trump staðfesti í gær frétt Wall Street Journal í síðustu viku um að hann hefði rætt þann möguleika við ráðgjafa sína að kaupa Grænland.
„Hugmyndinni var varpað fram og ég sagði að hún væri áhugaverð hernaðarlega. Við sögðumst hafa áhuga og ræddum þetta lítillega. Málið er ekki ofarlega á forgangslistanum,“ sagði Trump.

„Raunar er þetta risastór fasteignasamningur. Margt er hægt að gera. Danir skaðast mikið. Þeir tapa næstum því 700 milljónum dala árlega. Þeir tapa því miklu fé á þessu. Kaupin myndu styrkja Bandaríkin vel hernaðarlega,“ sagði forsetinn.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, lýsti hugmyndinni sem fáránlegri í viðtali við danska fjölmiðla í gær en hún er nú stödd á Grænlandi í boði Kims Kielsen, forsætisráðherra Grænlands.
„Ég er alveg sammála Kim Kielsen. Auðvitað er Grænland ekki til sölu,“ sagði Mette Frederiksen í Nuuk í gærkvöldi.
„Annars tilheyrir Grænland ekki Danmörku. Grænland er Grænlendinga,“ bætti hún við og sagði að sá tími væri liðinn að lönd og þjóðir væru seld.

„Við lítum á Bandaríkin sem mikilvægasta bandalagsríki okkar. Ég hlakka til heimsóknar forsetans og tel hana mikilvæga fyrir tengsl Danmerkur og Bandaríkjanna.
Norðurheimskautssvæðið og þar með Grænland verður sífellt mikilvægara, einnig hernaðarlega, svo við viljum jafnvel eiga nánara samstarf við Bandaríkin á Norðurheimskautssvæðinu,“ sagði forsætisráðherra Danmerkur.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: