Innlent

Uppsagnir stjórnenda á Landspítala

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Visir/Egill Aðalsteinsson
Fjórum framkvæmdastjórum verður sagt upp og fimm aðrir eru komnir að endapunkti tímabundinnar ráðningar hjá Landspítalanum. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, getur ekki sagt á þessum tímapunkti hvort komi til uppsagna á neðri stigum en ekki er stefnt að því að loka deildum.

Lengi hefur staðið til að breyta skipuriti Landspítalans. Páll segir að sparnaður sem slíkur hafi ekki verið markmið en að það dragi engu að síður úr sóun. Spítalinn glímir nú við rekstrarvanda og fundað er með heilbrigðisráðuneytinu vegna þessa.

„Vandi spítalans er sá að barnið vex en brókin ekki,“ segir Páll. „Íslendingum fjölgar og ferðamönnum fjölgar, fólk eldist og til sögunnar koma nýjar og dýrar meðferðir. Við höfum fengið aukið fé en ekki í samræmi við þessi verkefni.“

Þess utan glímir spítalinn við skort á hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og hjúkrunarrýmum og launabótum vegna eldri kjarasamninga. Unnið er að því að leysa vandamálin en það gerist hægar en spítalinn þarf að sögn Páls.

„Við gerum ráð fyrir ákveðnu aukafjármagni, meðal annars vegna aukinnar framleiðslu, en við verðum að telja okkur slíkt til halla þangað til það er greitt. En ég dreg ekki fjöður yfir að það er rekstrarvandi,“ segir Páll. Fyrir tveimur árum var spítalinn á núlli en 1.400 milljóna hallarekstur síðasta árs fylgir yfir á þetta ár. „Markmiðið hjá okkur er að vernda klíníska þjónustu og þetta hafi engin áhrif á sjúklingana.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×