Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, baðst í dag afsökunar á misnotkun sem átti sér stað á ríkisreknum barnaheimilum í landinu í þrjá áratugi. Beindi hún orðum sínum beint að fórnarlömbum ofbeldisins þegar hún bar afsökunarbeiðnina upp.
Opinber rannsókn leiddi í ljós að á barnaheimilum í umsjá danska ríkisins hafi börn verið barin, misnotuð kynferðislega og gefin fíkniefni. Misnotkunin átti sér stað á árunum 1945-1976 og var landlæg, ef marka má niðurstöðu rannsóknarinnar.
Lengi hefur verið barist fyrir því að ríkið axli ábyrgð og biðji fórnarlömb ofbeldisins afsökunar á opinberum vettvangi.
„Þessi afsökunarbeiðni hefur mikla þýðingu. Allt sem við vildum var hugarró,“ hefur BBC eftir hinum 68 ára Arne Roel Jørgensen. Hann dvaldi á drengjaheimilinu Godhavn í Tisvilde. Í samtali við breska ríkisútvarpið segir hann misnotkunina sem átti sér stað hafa eyðilagt mörg líf. Áfengis- og lyfjafíkn, vinnuálag og brostin hjónabönd hafi hjá fórnarlömbum ofbeldisins á þeirra eldri árum.
Frederiksen hitti mörg fórnarlömb misnotkunarinnar í ráðherrabústaðnum í Marienborg í dag.
„Ég vil horfa í augun á hverju einasta ykkar og biðjast afsökunar. Ég get ekki tekið sökina en ég get axlað ábyrgðina,“ sagði forsætisráðherrann.
Bað fórnarlömb áralangrar misnotkunar í Danmörku afsökunar
Vésteinn Örn Pétursson skrifar
