Skoðun

Lágmörkum kolefnissporin

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar
Í sumar hef ég notið þess að hann Kristmundur garðyrkjubóndi, sem er með sína framleiðslu nánast á móti mínu húsi, setti upp verslun á sínum afurðum úti á götu. Oft á dag fyllir hann skápinn af nýtíndum jarðarberjum sem eru algjörlega himnesk á bragðið. Þetta uppátæki Kristmundar hefur gert það að verkum að ég hef innbyrt ómælt magn af jarðarberjum í sumar með sannarlega góðri samvisku.

Það má með sanni segja að verslunarhættirnir verði varla umhverfisvænni en þetta. Berin góðu eru ræktuð við hin bestu skilyrði, vökvuð með hreinu íslensku vatni og gróðurhúsin hituð með sjálfbærri orku sem kraumar undir okkur öllum sem í Hveragerði búum. Og hann Mundi minn er hvorki að flækja hlutina né að vantreysta náunganum því ég set seðil í bauk eða millifæri á staðnum inn á reikning. Þetta er með öðrum orðum sjálfsafgreiðslustöð eins og hún gerist best!

Eins og áður sagði neyti ég dásemdanna með góðri samvisku enda finnst mér framlag mitt með ágætum. Ég styð við íslenska framleiðslu, styð við atvinnu í mínu nærumhverfi og held kolefnissporinu í lágmarki. Það væri óskandi ef við hefðum þetta ávallt í öndvegi er við efnum til kaupa á ýmsum vörum. Fyrst og síðast eigum við að spyrja okkur að því hvort varan sé íslensk. Því við eigum að velta því fyrir okkur hvaðan vörurnar eru að koma sem við neytum og við hvaða skilyrði varan er framleidd.

Því hverri einustu kaupákvörðun fylgir ábyrgð og við höfum val. Nýlega ætlaði ég að kaupa lambakótelettur úr kjötborði en hætti snarlega við er ég sá að þær voru frá Nýja-Sjálandi. Nú er þetta örugglega ágætt kjöt en það er samt eitthvað rangt við það að hér í landi sauðkindarinnar skulum við flytja með ærnum tilkostnaði lambakjöt til landsins frá einu fjarlægasta landi sem við getum fundið! Styðjum hvert við annað og stuðlum að því að blómleg atvinnustarfsemi blómstri hér á landi hvort sem það eru matvæli, húsgögn, þjónusta eða annað. Þannig höldum við kolefnissporinu í lágmarki því ég tölti þetta jafnvel bara á inniskónum!




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×