Guðmundur Hrafn Arngrímsson, talsmaður hluta landeigenda að Seljanesi, sagði í samtali við fréttastofu seint í kvöld að rætt verði við eftirlitsmann verksins strax í dagrenningu í fyrramálið þar sem spurt verður hvað verktakanum gangi til.
„Við teljum að þetta séu barnaleg örþrifaráð rökþrota HS Orku og Vesturverks, og ætluð til að ögra landeigendum á Seljanesi,“ segir Guðmundur.
Sjá einnig: Stöðvaði gröfu Vesturverks
Sjá einnig:Galið að haldið sé áfram með framkvæmdir

Dregið gæti til tíðinda á morgun
Vegurinn sem Vesturverk vinnur við að breikka vegna Hvalárvirkjunnar er Ófeigsfjarðarvegur um Ingólfsfjörð. Vegagerðin segir að vegurinn sé þjóðvegur og sé á hennar forræði og hafi verið heimilt að framselja veghaldið til verktakans á meðan framkvæmdum stendur.Deilt er meðal annars um landamerki eftir að Drangvíkurkort leit dagsins ljós í byrjun júlí sem á að sýna að sé mjög á skjön við þau kort og skjöl sem hafa verið almennt viðurkennd í áratugi. Yfirvöld hafa viljað nota sömu veglínu frekar en að byggja aðra, vegna flutninga fyrir fyrirhugaða virkjun.
Guðmundur Hrafn sagði í samtali við fréttastofu í kvöld að í framkvæmdaleyfinu, sem nú hefur verið kært til Úrskurðarnefndar Umhverfis- og auðlindamála séu skilyrði um að eiga samráð við landeigendur og að slíkt hafi einnig komið fram í yfirlýsingum Vegagerðarinnar.
Sjá einnig: Gröfur Vesturverks nálgast átakasvæðið í Árneshreppi
„Á morgun mun draga til tíðinda ef verktakar HS Orku fara ekki að tilmælum. Réttur landeigenda er til að stöðva þessa óhæfu í þeirra landi,“ segir Guðmundur og á þar við hluta landeigenda að Seljanesi.
„Þeir sem standa fyrir þessari framkvæmd hafa sýnt af sér fádæma gunguskap og ekki haft í sér þann manndóm að ræða við landeigendur að Seljanesi í tengslum við þessar framkvæmdir þrátt fyrir ítrekuð og skýr fyrirmæli þar um,“ segir Guðmundur.