Erlent

Í gæsluvarðhald grunaður um tengsl við morðið á konunni í Malmö

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Barnsfaðir konunnar sem var myrt er 35 ára gamall en hann hafði tengingar í undirheima Malmö. Árið 2010 var hann dæmdur til átta ára fangelsisvistar fyrir aðild sína að Bröndby-ráninu þar sem ræningjar komust undan með 60 milljónir danskra króna í farteskinu.
Barnsfaðir konunnar sem var myrt er 35 ára gamall en hann hafði tengingar í undirheima Malmö. Árið 2010 var hann dæmdur til átta ára fangelsisvistar fyrir aðild sína að Bröndby-ráninu þar sem ræningjar komust undan með 60 milljónir danskra króna í farteskinu. Vísir/Getty
Nítján ára karlmaður sem handtekinn var á mánudaginn í tengslum við morðið á konu í miðbæ Malmö á mánudaginn var í dag úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Maðurinn er talinn eiga aðild að morðinu auk þess að vera grunaður um gróft brot á vopnalögum.

Móðirin var með ungt barn sitt í fanginu þegar hún var skotin í höfuðið á mánudaginn. Ungi maðurinn var handtekinn að kvöldi sama dag en maðurinn sýndi ekki mótspyrnu við handtökuna.

Ungi maðurinn er skráður eigandi bílsins sem fannst í ljósum lögum í Lorensberg um fjörutíu mínútum eftir morðið. Lögreglan telur morðingjann hafa notast við bílinn til að komast af vettvangi morðsins.

Ungi maðurinn neitar allri aðkomu að morðinu og lögmaður hans krefst þess að honum verði sleppt úr haldi. Þá segir lögmaður hans að ungi maðurinn hafi sjálfur tilkynnt sig til lögreglu. Hann hefði ekki verið í Malmö þegar morðið átti sér starf heldur í dómssal í Helsinborg. Þetta staðfestir dómstóllinn í Helsingborg við sænska ríkissjónvarpið.

Í kröfu lögreglu um gæsluvarðhald yfir manninum er meðal annars lýst yfir áhyggjum af því að hann gæti átt við sönnunargögn gengi hann laus. Lögmaður mannsins segist vonsvikinn með varðhaldskröfuna en segist handviss um að skjólstæðingi sínum verði sleppt þegar málið skýrist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×