Innlent

Fullur með farþega á Viðeyjarferjunni

Sylvía Hall skrifar
Maðurinn var með farþega í hvalaskoðun og stýrði skipinu undir áhrifum áfengis.
Maðurinn var með farþega í hvalaskoðun og stýrði skipinu undir áhrifum áfengis. Vísir/Vilhelm
Uppfært 15:09: Í upprunlegri útgáfu fréttarinnar kom fram að skipstjórinn hafi verið á hvalaskoðunarskipi, en hann reyndist vera skipstjóri Viðeyjarferjunnar. Maðurinn starfaði þó fyrir hvalaskoðunarfyrirtækið Eldingu, og hefur verið vikið frá störfum.



Maðurinn sem handtekinn var við Ægisgarð í gærkvöldi grunaður um að hafa stýrt skipi undir áhrifum áfengis hafði siglt Viðeyjarferjunni með farþega áður en lögregla mætti á vettvang. Maðurinn var vistaður í fangageymslum lögreglu í nótt og verður yfirheyrður seinna í dag.

Lögreglu barst tilkynning um manninn á sjöunda tímanum í gærkvöldi og handtók manninn þegar skipið kom aftur til hafnar. Að sögn Jóhanns Karls Þórissonar aðstoðaryfirlögregluþjóns voru það annað hvort aðrir starfsmenn hvalaskoðunarfyrirtækisins eða farþegar sem tilkynntu um ástand mannsins.

Áfengismælingar sýndu að maðurinn var undir áhrifum áfengis og var hann því brotlegur við siglingarlög þar sem kveðið er á um að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna skipi undir áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna. Brot gegn umræddu ákvæði geta varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×