Lífið

Ezra Miller vildi sem minnst af athygli vita á N1 í Borgarnesi

Birgir Olgeirsson skrifar
Ezra Miller sást í Borgarnesi í dag.
Ezra Miller sást í Borgarnesi í dag.

Bandaríski leikarinn Ezra Miller er staddur á Íslandi en það sást til hans í þjónustustöð N1 í Borgarnesi í dag. Samkvæmt heimildum Vísis var Miller þar á ferð ásamt félaga sínum og leiðsögumanni og virtust þeir ætla að falla ansi vel inn í hópinn þar til ungar stúlkur báru kennsl á kauða.

Fóru þær upp að leikaranum og ræddu stuttlega við hann og báðu meðal annars um að fá að taka mynd af sér með Miller. Leikarinn var hinn kurteisasti að sögn heimildarmanna Vísis en vildi þó sem minnst af athyglinni vita.

Miller er mikill Íslandsvinur og er sagður hafa komið nokkrum sinnum hingað til lands.

Frægt er þegar hann mætti óvænt í 80´s-partí knattspyrnufélagsins Léttis í ÍR-heimilinu í Breiðholti í nóvember síðastliðnum.

Þangað mætti hann með Íslendingum sem hann þekkir til og hafa tengingu við Kex-hostel í miðbæ Reykjavíkur.

Miller er 26 ára gamall en hann náði að fanga athygli kvikmyndaunnenda með frammistöðu sinni í sálfræðitryllinum We Need To Talk About Kevin sem kom út árið 2011. Hann hefur einnig leikið í myndunum á borð við The Stanford Prison Experiment og gamanmyndinni Trainwreck.

Hans stærstu hlutverk eru þó vafalaust í Fantastic Beasts-myndunum og sem Barry Allen, eða The Flash, í Justice League.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.