Fótbolti

„Mamma vildi fá að taka við verðlaununum svo hún gæti hitt Ronaldo“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lucy Bronze.
Lucy Bronze. Getty/ Alex Grimm
Enska knattspyrnukonan Lucy Bronze var í gær valin besti leikmaður ársins hjá UEFA en var samt fjarri góðu gamni á sjálfri verðlaunaafhendingunni.

Lucy Bronze var upptekin með félögum sínum í enska landsliðinu sem eru að hefja undankeppni EM.

Blaðamaður breska ríkisútvarpsins hitti á Lucy Bronze á æfingu landsliðsins og spurði hana út í verðlaunin.





Þar kom meðal annars fram að Lucy Bronze þurfti að halda þessu leyndu.

„Ég mátti ekki segja mörgum frá þessu en aðeins liðsfélagar mínir í enska landsliðinu og mamma mín vissu af þessu,“ sagði Lucy Bronze en hvað sagði mamma hennar þegar hún heyrði fréttirnar?

„Hún bað um að fara á verðlaunahófið fyrir mína hönd og taka við verðlaunum. Hún vildi nefnilega hitta Cristiano Ronaldo,“ sagði  Lucy Bronze brosandi en hún gat þó ekki orðið við ósk móður sinnar.

„Ég sagði við hana að ég væri þegar búin að taka við verðlaununum,“ sagði Bronze.

Lucy Bronze átti frábært tímabil með Evrópumeisturum Lyon frá Frakklandi og fékk yfirburðarkosningu. Bronze fékk 88 stig eða 32 stigum meira en hin norska Ada Hegerberg sem spilar með henni hjá Lyon. Það dugði Ada Hegerberg ekki að skora þrennu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Á tímabilinu 2018-19 vann Lucy Bronze þrefalt með Lyon, komst í undanúrslit á HM með enska landsliðinu og fékk silfurknöttinn sem næstbesti leikmaður HM. Hún vann einnig SheBelieves bikarinn með enska landsliðinu.

Þetta er þriðja árið í röð sem Lucy Bronze hækkar sig á listanum en hún varð fimmta í kjörinu 2018 og áttunda árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×