Viðskipti innlent

Brim braut lög um verð­bréfa­við­skipti og greiðir 8,2 milljónir króna í sekt

Eiður Þór Árnason skrifar
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Útgerðarfélagið Brim braut lög um verðbréfaviðskipti í fyrra og gerði félagið samkomulag við Fjármálaeftirlitið þann 10. júlí síðastliðinn um að ljúka málinu með sátt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu sem birt var í dag.

Sem hluti af sáttinni viðurkennir Brim að hafa brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti með því að hafa ekki birt innherjaupplýsingar eins fljótt og auðið var. Féllst Brim hf. á að greiða sekt upp á 8,2 milljónir króna eftir að hafa óskað eftir því að ljúka málinu með sátt.

Samkvæmt Fjármálaeftirlitinu (FME) átti brotið sér stað þegar Brim, sem þá hét HB Grandi, hygðist kaupa allt hlutafé í útgerðarfélaginu Ögurvík ehf. Ekki kemur fram í tilkynningu FME hvaða innherja um ræðir en áður hefur verið greint frá því að HB Grandi, sem síðar varð Brim, hafi keypt hlutafé í Ögurvík af Guðmundi Kristjánssyni, þá forstjóra og aðaleiganda HB Granda, í september á síðasta ári. Guðmundur er nú forstjóri Brims.

Í tilkynningunni er kaupferlið sagt hafa hafist formlega í lok ágúst á síðasta ári þegar Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra félagsins, var falið af stjórn þess að hefja samningaviðræður um kaupin. Samkvæmt FME töldust þær upplýsingar vera innherjaupplýsingar á þeim tímapunkti í skilningi laganna og var félaginu því skylt að birta þær eins fljótt og auðið var.

Félagið birti þó ekki strax umræddar upplýsingar, né tilkynnti Fjármálaeftirlitinu um frestun á birtingu þeirra líkt og heimild er fyrir í lögum. Upplýsingarnar voru fyrst birtar þann 7. september 2018, þegar opinber tilkynning var gefin út um félagið hafi gert samning um kaup á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Ögurvík.

Fram kemur í tilkynningu FME að samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti „ber[i] útgef­anda fjár­mála­gern­inga, sem teknir hafa verið til við­skipta á skipu­legum verð­bréfa­mark­aði, eða verslað er með á mark­aðs­torgi fjár­mála­gern­inga (MTF), að birta almenn­ingi á Evr­ópska efna­hags­svæð­inu allar þær innherjaupplýsingar sem varða hann eins fljótt og auðið er og á jafn­ræð­is­grund­velli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×