„Það er ansi langur tími síðan ég skoraði og auðvitað þurfti þetta að vera svona mark, með smá heppnisstimpli. En maður var á rétta svæðinu og á réttum tíma. Þetta er eitthvað til að byggja á. Það er mjög jákvætt að fá langþráð mark,“ sagði Jón Daði í samtali við Óskar Ófeig Jónsson í Albaníu þar sem Ísland mætir heimamönnum annað kvöld.
Á laugardaginn byrjuðu Jón Daði og Kolbeinn Sigþórsson inn á í íslensku framlínunni í fyrsta sinn síðan gegn Frökkum á EM 2016.
„Það var gott að spila aftur með Kolla. Það var langt síðan síðast. Við tengjum vel saman og þekkjum hvorn annan mjög vel,“ sagði Jón Daði sem nýtur þess að spila með Kolbeini sem skoraði einnig í leiknum gegn Moldóvu.
„Eins og ég sagði í einhverju viðtali var þetta nostalgíuaugnablik. Það er langt síðan maður spilaði með honum en manni leið samt ekki þannig. Við vitum öll hvað getur gert og hvað hann stendur fyrir.“
Ísland getur unnið sinn fjórða leik í röð í undankeppni á morgun, eitthvað sem íslenska karlalandsliðið hefur aldrei afrekað áður.
„Er þá ekki vonandi komið að því. Það er æðislegt að vinna þrjá leiki í röð og þú vilt halda áfram og keyra á þetta. Það yrði mjög sterkt að ná sigri á morgun,“ sagði Jón Daði.
Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.