Mótmælin í dag fóru friðsamlega fram í fyrstu en brutust síðar eins og oft áður út í ofbeldi og átök mótmælenda við lögreglu. Mótmælendur frömdu skemmdarverk á neðanjarðarlestarstöðvum, kveiktu elda og lokuðu fyrir umferð. Lögregla notaðist í kjölfarið við táragas til að dreifa mótmælendum.
Mikill fjöldi mótmælenda safnaðist saman í almenningsgarði og kallaði þar slagorð á borð við „Veitið Beijing viðnám, frelsið Hong Kong“ og „Standið með Hong Kong, berjist fyrir frelsi.“ Margir veifuðu sömuleiðis bandaríska fánanum og báru skilti þar sem Trump er beðinn um að frelsa Hong Kong.
Stjórnvöld í Hong Kong urðu í liðinni viku við einni kröfu mótmælendanna þegar stjórnarliðar lofuðu að draga framsalsfrumvarpið, sem var uppspretta mótmælanna, formlega til baka. Sú aðgerð virðist ekki hafa dugað til að róa mótmælendur, sem hafa einnig krafist lýðræðisumbóta, afsagnar Carrie Lam, æðsta stjórnanda Hong Kong, og sjálfstæðrar rannsóknar á meintu lögregluofbeldi.