Rannsókn á tildrögum slyssins er í höndum lögreglu á Vestfjörðum.Vísir/vilhelm
Einn var fluttur alvarlega slasaður með sjúkraflugi til Reykjavíkur í gærkvöldi eftir bílveltu í Hnífsdal. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á Vestfjörðum. Tilkynnt var um slysið um klukkan ellefu. Svo virðist sem ökumaður fólksbifreiðar sem ekið var úr Bolungarvíkurgöngum í áttina til Ísafjarðar hafi misst stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún lenti á ljósastaur og valt í framhaldi a.m.k. eina veltu.
Auk ökumanns voru tveir farþegar í bifreiðinni. Allir voru þeir fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði. Einn var metinn alvarlega slasaður og fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur.
Rannsókn á tildrögum slyssins er í höndum lögreglunnar á Vestfjörðum og Rannsóknarnefndar samgönguslysa.