Hollendingar kláruðu Þjóðverja í markaleik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hollendingar þurftu sigur til þess að halda sér á lífi í baráttunni um sæti á EM
Hollendingar þurftu sigur til þess að halda sér á lífi í baráttunni um sæti á EM vísir/getty
Holland vann sterkan útisigur á Þýskalandi í C-riðli í undankeppni EM 2020 í fótbolta í kvöld.

Heimamenn í þýska landsliðinu byrjuðu betur og skoraði Serge Gnabry fyrir Þjóðverja eftir níu mínútna leik. Bæði lið fengu færi til þess að bæta við en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik.

Gestirnir frá Hollandi byrjuðu seinni hálfleikinn betur og jafnaði Frenkie de Jong metin eftir um klukkutíma leik. Þeir komust svo yfir á 66. mínútu þegar Jonathan Tah skoraði sjálfsmark upp úr hornspyrnu.

Það var mikið líf um miðjan seinni hálfleikinn því fjórum mínútum eftir að Holland komst yfir var dæmd vítaspyrna á Matthijs de Ligt. Hann háði baráttu við Nico Schulz á teignum, boltinn barst upp í loft og á leiðinni niður aftur fór hann í handarbak Hollendingsins. De Ligt hafði enga hugmynd um hvar boltinn væri og gat lítið gert við þessu, en boltinn fór vissulega í hendina á honum og vítaspyrna dæmd.

Toni Kroos steig á línuna og jafnaði metin fyrir Þjóðverja af miklu öryggi.

Varamaðurinn Donyell Malen, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir Holland, kom Hollendingum aftur yfir á 79. mínútu eftir góða skyndisókn og í uppbótartíma seinni hálfleiks tryggði Georginio Wijnaldum 4-2 sigur Hollands.

Úrslitin breyta engu um stöðu liðanna í riðlinum, Þjóðverjar eru enn í öðru sæti og Hollendingar í því þriðja en munurinn á liðunum aðeins þrjú stig og Holland á leik til góða á Þýskaland.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira