Skoðun

Geggjað að gönna

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Ég breytti ferðavenjum mínum í sumar. Skellti mér á rafmagnshlaupahjól og legg núna bílnum langt í burtu og þeysist um með myljandi þungarokk í eyrunum fram hjá umferð sem hreyfist á hraða snigilsins.

Þetta er algjör snilldar ferðamáti en ofboðslega vona ég að aðrir fari ekki að apa eftir mér og þeim fáu sem geta skilið bílinn eftir, því Reykjavíkurborg getur ekki tekið við þeim sem vilja og geta skilið bílinn eftir.

Göngu- og hjólastígar eru flestir þröngir, hrikalega illa farnir og ósléttir með djúpum holum. Með haustinu, þegar rigningin bætist við, myndast pollar af því að ódýrasta tilboðinu var tekið. Og af því að ég vinn í miðbænum þá er nú ekki um auðugan rafmagnshjólagarð að gresja. Þar er maður eiginlega bara fyrir.

Það heyrist stundum eitthvað frá stjórnmálamönnum borgarinnar um að það þurfi að breyta ferðavenjum og fleiri þurfi að taka strætó eða hjóla eða eitthvað þannig. Sem er fínt hjal en ekkert meir. Af hverju ætti maður að taka strætó sem situr í sömu umferðarsúpu og aðrir á einkabílnum? Af hverju ætti maður að skilja bílinn eftir þegar maður þarf að hjóla á stígum sem eru svo illa gerðir að það er borginni til skammar og svona er lengi hægt að telja.

Því biðla ég til þeirra sem eru orðnir leiðir á að vera 70-90 mínútur heim til sín. Ekki gefast upp þó að þið vitið öll að þetta mun aldrei lagast. En bara ekki breyta ferðavenjum. Það er geggjað að gönna, eins og það heitir víst, á hlaupahjólinu sínu um hólótta og vonlausa en tóma stígana. Stígarnir verða fyrst stórhættulegir ef fleiri fara að nota þá.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×