„Maður býr sér til lítil verkefni og við erum með fullt af verkefnum sem við þurfum að stjórna fram á við þó við séum kannski ekki með boltann þannig að það er fullt sem heldur manni við efnið. Það er líka mikilvægt því það má ekki neima einn hlutur mistakast og þá getur þetta farið í hina áttina,“ sagði Glódís Perla aðspurð hvernig það væri að halda einbeitingu í öftustu línu þegar boltinn er meira og minna á vallarhelmingi mótherjans allan tímann.
„Við ræddum í hálfleik að ef við værum ekki að finna svæðin á milli að lyfta honum þá bara inn á millisvæði, á hafsentana, vinna seinni bolta og vinna út frá því,“ sagði Glódís Perla varðandi breytinguna á uppspili Íslands í síðari hálfleik.
Hún átti sendinguna upp völlinn í aðdraganda sigurmarksins. Þá átti hún einnig þónokkrar stórkostlegar þversendingar yfir á Hallberu Guðnýju Gísladóttur sem óð upp vinstri vænginn eða þá upp á kollinn á Dagnýju Brynjarsdóttur.
Að lokum var Glódís spurð út í hversu mikilvægt það væri að byrja undankeppnina á sex stigum á heimavelli.
„Gríðarlega mikilvægt. Bæði fyrir okkur, sjálfstraustið og bara allt. Núna erum við að fara í útileiki og þá skiptir máli að vera með sjálfstraust.“