„Mér fannst drengirnir leika mjög vel frá fyrstu mínútu. Þeir voru tilbúnir í slaginn,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Fjölnis, í samtali við Vísi eftir sigur Fjölnis á HK í nýliðaslagnum í Kórnum í dag.
„Varnarleikurinn var mjög góður og markvarslan mjög góð hjá Bjarka allan leikinn. Við vorum yfir nær allan leikinn og þetta var spennandi undir lokin en við náðum að koma okkur í gegnum þetta.“
Aðspurður hvort að Kári hafi orðið stressaður undir lokin er HK minnkaði muninn svaraði Kári:
„Jú, auðvitað, ég ætla ekki að reyna ljúga því. Við erum að spila á fáum mönnum. Arnar Máni datt út í upphitun og Sveinn Þorgeirsson fyrir leikinn.“
„Kannski var komin einhver þreyta og við hefðum getað rúllað betur en fengum tvö stig og það er fyrir öllu.“
Fjölnismenn eru því komnir með tvö stig og sér í lagi mikilvæg þar sem líkur eru á að Fjölnir og HK verði að berjast neðarlega í töflunni.
„Það er mikið undir í þessum leik og við ætlum ekki að fara í gegnum þetta mót og vera einhverjir áhorfendur að þessu.“
„Auðvitað megum við ekki gleyma því að þetta eru bara tvö stig af fjölmörgum sem við þurfum til að ná markmiðum okkar að halda liðinu í deildinni. Næst er það KA á sunnudaginn og við þurfum að spila spila þann leik jafn vel og ef ekki betur.“
„Það er alltaf gaman að ná í stig og það er eitthvað sem við gleðjumst yfir. Strákarnir eiga mikið hrós skilið,“ sagði Kári að lokum.
Kári: Ætlum ekki að vera áhorfendur
Tengdar fréttir
Umfjöllun og viðtöl: HK - Fjölnir 25-27 | Fjölnir hafði betur í nýliðaslagnum
Fjölnir er komið á blað í deildinni en HK er enn án stiga.