Að minnsta kosti tíu manns eru látnir eftir að eldur kom upp á sjúkrahúsi í brasilísku stórborginni Ríó de Janeiro í gær. AP greinir frá þessu og vísar í talsmenn slökkviliðs í borginni.
Sjónarvottar segja að ringulreið hafi skapast á sjúkrahúsinu eftir að eldurinn kom upp og slökkviliðsins var beðið. Mikill reykur hafi myndast og hafi einhverjir forðað sér út um glugga.
Um níutíu sjúklingar sem dvöldu á Badim-sjúkrahúsinu voru fluttir á önnur sjúkrahús, en eldurinn kom upp í gærkvöldi klukkan 18:30 að staðartíma.
Fjórir slökkviliðsmenn þurftu að leita á önnur sjúkrahús eftir að hafa fundið til krankleika í kjölfar þess að hafa barist við eldinn.
Rannsókn er hafin á upptökum eldsins, en fulltrúar sjúkrahússins telja að skammhlaup hafi orðið í rafal sem varð til þess að eldurinn kviknaði.
Tíu látnir eftir eldsvoða á sjúkrahúsi í Ríó
Atli Ísleifsson skrifar
