Efnisveitan Viaplay mun ekki geta sýnt frá ensku úrvalsdeildinni, Meistaradeildinni, eða veitt aðgang að öðru efni sem er háð sýningarrétti hér á landi. Þetta er mat fjarskiptafyrirtækjanna Símans og Sýnar.
Eins og greint var frá í fyrradag hefur norræna fjölmiðlafyrirtækið Nordic Entertainment Group (NENT) ákveðið að gera Íslendingum kleift að gerast áskrifendur að efnisveitunni Viaplay á fyrri helmingi næsta árs.
Í fréttatilkynningu NENT kom fram að í gegnum efnisveituna væri hægt að nálgast beinar útsendingar af fjölmörgum íþróttaviðburðum, þar á meðal af leikjum í Ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni. Síminn hefur sýningarrétt á Ensku úrvalsdeildinni en Sýn á Meistaradeildinni. Í svari Símans við fyrirspurn Markaðarins segir að Viaplay muni ekki geta sýnt frá Ensku úrvalsdeildinni.
„Svona virka samningar um sýningarrétt. Rétt eins og margir þekkja að úrval efnis á Netflix er mismunandi eftir löndum allt eftir því hvernig samningar um sýningarrétt dreifast á milli aðila og landa. Sama má segja um Amazon Prime Video og í raun allar streymisveitur. Viapla eru svo með fleira efni í sinni veitu en bara Enska boltann sem mun ekki verða aðgengilegt á Íslandi þar sem við eða aðrir erum með gilda samninga hér á landi,“ segir í svari Símans. Þá er tekið fram að Viaplay muni vafalaust virða þá samninga sem fyrir eru.
Sýn tekur í sama streng. „Að því marki sem um er að ræða efni, sem Sýn á einkarétt til sýninga á hér á landi, mun Viaplay ekki geta streymt hlutaðeigandi efni hér á landi. Þetta á meðal annars við um Meistaradeildina,“ segir í svari Sýnar.
Viðskipti innlent