Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var svekktur með allt sem viðkom leik Íslands og Albaníu í undankeppni EM 2020 í kvöld.
„Við mættum þeim ekki af krafti, vorum slakir í fyrri hálfleik. Kannski aðeins betri í seinni en það segir sig sjálft að þegar þú færð á þig fjögur mörk á útivelli þá ert þú ekki að fara að vinna, svo einfalt er það,“ sagði Aron Einar Gunnarsson við Óskar Ófeig Jónsson í Albaníu.
Ísland tapaði leiknum 4-2 eftir að hafa jafnað leikinn í tvígang.
„Það er það sem er svo svekkjandi við þetta, að koma til baka tvisvar og eyða miklu púðri í það, svo náum við ekki að halda.“
„Við urðum aðeins of ákafir fannst mér í staðinn fyrir að setjast bara aðeins niður og einblína á varnarleikinn þá förum við að ætla að vinna.“
„Auðvitað vildum við vinna en við vorum aðeins of ákafir þegar við jöfnum í bæði skiptin og þetta var bara lélegt.“
Frakkland og Tyrkland unnu bæði leiki sína í kvöld svo tapið var slæmt fyrir stöðu Íslands í riðlinum.
„Þetta er ennþá í okkar höndum bara og það er það góða við það. Þetta var svekkelsi í dag, en við getum verið pirraðir út í okkur sjálfa og engan annan,“ sagð Aron Einar Gunnarsson.
Fótbolti