Fastlega er búist við því að stærsta kynningin verði nýjasti síminn í iPhone-línunni, það er að segja iPhone 11. Samkvæmt Techcrunch er búist við því að þrjár útgáfur verði kynntar. Ein hefðbundin og svo tvær mismunandi sem deila viðskeytinu „pro“. Verða það dýrari símar línunnar.
Þótt ekki liggi fyrir hvernig 11 verður frábrugðinn XS hefur verið orðrómur á kreiki um nýja og öflugri örflögu, þrefalda myndavél og að síminn geti hlaðið aukatæki á borð við AirPods þráðlaust.
Þá hefur heyrst að Apple muni setja á markað tæki í nýjum litum sem ekki hafa sést áður.
Kynningin fer fram í Steve Jobs-sýningarsalnum í höfuðstöðvum Apple í Cupertino í Bandaríkjunum og hefst klukkan 17.