Öll ríki eru í þróun
Í einlægum tilraunum sem þessum hefur því miður nokkurs yfirlætis gætt í hugarfari og orðavali. Framlög til uppbyggingar í hinum svokölluðu „vanþróuðu“ ríkjum hafa oftar en ekki verið hugsuð og útfærð á forsendum þeirra sem kölluð eru „þróuð“ ríki. Þau vilja vel – en átta sig ekki endilega á því hvað samvinnuaðilinn þarf í raun eða hvað virkar í því samfélagi til lengri tíma. Stöldrum því aðeins við og gefum því gaum hve hrokafullt orðavalið er í raun um „vanþróuð“ og „þróuð“ ríki. Er ekki réttara og sanngjarnara að tala um há- og lágtekjuríki í þessu samhengi?Sem betur fer hafa langflest samtök og fyrirtæki, einstaklingar og leiðtogar ríkja áttað sig á því að þróunarsamvinna snýst ekki um að gefa fjármagn í blindni eða þröngva eigin lausnum upp á önnur samfélög. Hún snýst um að huga að uppbyggingu þekkingar, kunnáttu og skipulags, sem til lengri tíma getur stuðlað að sjálfbærni og betri lífskjörum fyrir fólkið í viðkomandi landi og á þess forsendum.
Þróunarsamvinna er nefnilega ekki svo einföld að „þróuð ríki leiði vanþróuð ríki út úr fátækt“. Öll ríki eru í þróun og því hefur eitt mesta framfaraskrefið í þessum efnum verið í þeim nýmælum að hvetja fyrirtæki til þátttöku þar sem viðskipti eru notuð með beinum hætti til að stuðla að þróun. Með þessum hætti er samvinna milli ríkja nýtt með auknum tækifærum og velsæld fyrir alla sem að samstarfinu koma.
Íslensk fyrirtæki hefja þróunarsamvinnu með beinum hætti
Fyrstu íslensku fyrirtækin sem nú leggja í slíka vegferð, fyrir tilstilli samstarfssjóðs utanríkisráðuneytisins við atvinnulífið um heimsmarkmiðin, eru Marel og Thoregs. Bæði fyrirtækin munu stuðla að aukinni þekkingu á tækni og vinnslu í matvælaiðnaði með það að markmiði að hafa bein áhrif á verðmæti afurða, uppbyggingu atvinnumöguleika og sjálfbæran vöxt starfsemi í viðkomandi landi. Með sjóðnum fá fyrirtækin aukin tækifæri til að leggja lóð á vogarskálar þróunarsamvinnu með því að leggja til þekkingu, fjármagn og búnað sem stuðlar að bættum lífskjörum í lágtekjuríkjum til lengri tíma, en geta líka skapað gagnkvæm viðskiptasambönd til framtíðar.Fjölmörg íslensk fyrirtæki geta miðlað þekkingu sinni og reynslu í nýju umhverfi þar sem dýrmæt samvinna verður til og sem ryður jafnvel brautir nýsköpunar svo að báðir aðilar verða reynslunni ríkari. Frá ungum tombóluhaldara til fyrirtækjafrömuða – við eigum það flest sammerkt að vilja bæta heiminn. Með beinni þátttöku í þróunarsamvinnu erum við nokkrum skrefum nær. Greinin er skrifuð í tilefni átaksins Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum félagasamtaka er starfa í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu í samstarfi við utanríkisráðuneyti. Markmið átaksins er að hvetja fyrirtæki, stór sem smá, að taka þátt í þróunarsamvinnu og vinna þannig markvisst að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.