Innlent

Hótaði að berja tvo lögreglumenn og sagðist hlakka til að hitta annan þeirra í dimmu húsasundi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn var handtekinn eftir að hann ók á umferðarljós.
Maðurinn var handtekinn eftir að hann ók á umferðarljós. Vísir/vilhelm
Karlmaður hefur verið ákærður fyrir umferðarlagabrot og brot gegn valdstjórninni. Maðurinn var handtekinn fyrir ölvunarakstur 11. maí 2015 og hótaði hann lögreglumönnum á lögreglustöðunni á Grensásvegi ofbeldi.

Dómsmálið á hendur manninum verður tekið fyrir þann 10. október næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í ákæru sem gefin var út vegna málsins segir að maðurinn hafi ekið á umferðarljós með biðskyldumerki á gatnamótum Fjallkonuvegar og Gullinbrúar. Umferðarljósið skemmdist en maðurinn ók á brott án þess að nema staðar eða tilkynna lögreglu um brotið.

Maðurinn var handtekinn skömmu síðar og í ljós kom að hann var undir áhrifum áfengis en vínandamagn hans mældist 2,85 prómill en á þessum tíma var leyfilegt vínandamagn ökumanna 0,5 prómill.

Eitthvað virðist maðurinn hafa verið ósáttur við handtökuna en eftir að hann var færður á lögreglustöðina við Grensáveg hótaði hann tveimur lögreglumönnum ofbeldi. Sagðist hann hlakka til að hitta annan þeirra í dimmu húsasundi og hótaði hann því að berja báða lögreglumenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×