Skoðun

Ríkislögreglustjórinn

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Ríkislögreglustjóri hefur, með orðum sínum og gjörðum, komið sér í þá stöðu að hann nýtur ekki lengur trausts í embætti. Það sýna samþykktir fagfélaga innan lögreglunnar. Haraldur Johannessen hefur gegnt stöðunni í rúma tvo áratugi og nú er svo komið að hann nýtur ekki lengur trausts. Það kallar á aðgerðir.

Lögreglan gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Til hennar verður að ríkja traust og þau sem þar starfa verða að treysta hvert öðru og því kerfi sem þau starfa innan. Það að ríkislögreglustjóri lýsi því yfir í viðtali að innan lögreglunnar ríki spilling á eitt og sér að kalla á að hann verði látinn standa fyrir máli sínu. Ef hann getur ekki sýnt fram á dæmi, máli sínu til stuðnings, er yfirlýsingin þess eðlis að honum er ekki sætt í starfi eftir hana.

Hvað hefur breyst?

Í því ljósi er athyglisvert að rifja upp viðtal við Harald í Fréttablaðinu frá 2016. Þar segir hann:

„Ég er búinn að vera ríkislögreglustjóri í átján ár. Á ferlinum hef ég ekki upplifað mörg spillingarmál. Það eru örfá mál þar sem lögreglumenn hafa misst tök á sjálfum sér. Þau mál hafa yfirleitt komið upp vegna innra eftirlits. Það eru engir lögreglustjórar sem líða það að spilling líðist innan síns embættis.“

Hvað hefur breyst á þessum þremur árum að nú telji Haraldur að spilling ríki innan lögreglunnar? Því getur hann einn svarað, enda ber hann sjálfur ábyrgð á eftirliti með innri málum lögreglunnar.

Haraldur virðist ekki gera sér ljósa þá ábyrgð sem á honum hvílir sem ríkislögreglustjóra. Staðan virðist öllum öðrum að kenna, ekki honum. Ef ríkislögreglustjóri tæki sína ábyrgð alvarlega mundi hann stíga til hliðar á meðan stjórnsýsluúttekt fer fram. Skapa frið, það hlýtur að vera hlutverk hvers sem gegnir embættinu. Ef hann er ekki fær um að taka þá ákvörðun sjálfur á dómsmálaráðherra að taka hana fyrir hann.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×