Skoðun

Belja án rassgats

Davíð Þorláksson skrifar
Fjármálaráðherra fannst nóg um verðið þegar hann keypti sér bjór á einu af mörgum gæðahótelum borgarinnar um þarsíðustu helgi. Verðið er sannarlega hátt miðað við útlönd, en skoðum nokkur atriði sem eru þarna á bak við.

Í fyrsta lagi er skattheimta hins opinbera á Íslandi ein sú hæsta í heimi, eða 34% af landsframleiðslu. Þar er Ísland heimsmeistari ásamt Dönum og Svíum. Hótelið þarf að greiða áfengisgjald, virðisaukaskatt, tryggingagjald, fasteignagjöld og, ef eitthvað er eftir, tekjuskatt. Bara fasteignagjöldin af einu stóru gæðahóteli í Reykjavík geta árlega verið hátt í 80 milljónir.

Í öðru lagi leggja gæðahótelin á Íslandi sig fram um að vera með menntað fólk í þjónustu og eldhúsi. Þau sinna einnig vel þjálfun nema sem fara svo oft til starfa á öðrum veitingastöðum og hótelum um allt land. Þótt menntun sé að meginstofni til ókeypis á Íslandi þá getur það verið kostnaðarsamt að vera með fjölda iðnnema í læri. Þau sem reka þetta tiltekna gæðahótel hafa einmitt fengið verðlaun fyrir sitt framlag til menntamála.

Í þriðja lagi eru laun há á Íslandi. Hér eru greidd önnur hæstu meðallaun í heimi og þriðju hæstu lágmarkslaun í heimi. Varla viljum við breyta því? Þjónn sem er útlærður í framreiðslu er þannig með ágætis tímakaup að skenkja bjór á laugardagskvöldi. Svo má ekki gleyma að stór hluti launa sem honum eru greidd rennur í ríkissjóð.

Það er ekki laust við að gamalt, en ekkert sérstaklega smekklegt, máltæki komi í huga: Þar skeit beljan sem ekkert hefur rassgatið.


Tengdar fréttir

Bjarna blöskraði bjórverðið á barnum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skellti sér á barinn á Nordica Hilton hótelinu á Suðurlandsbraut um helgina þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt flokksráðsfund sinn um helgina.

Áfengi mælist dýrast á Íslandi

Í nýrri rannsókn Euro­stat á áfengisverði í Evrópu kemur í ljós að Ísland er dýrasti staðurinn. Rannsóknin næri bæði til Evrópusambandsins og EFTA-landanna.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×