Skoðun

Kerfisbreyting í þágu barna

Ásmundur Einar Daðason skrifar
Við Íslendingar höfum um of langt skeið þurft að horfast í augu við að börn og ungmenni sem þurfa aðstoð lenda á gráu svæði í kerfinu. Ólíkt mörgum öðrum þjóðfélagshópum hafa þessir einstaklingar ekki marga háværa talsmenn í sínum röðum. Sést það meðal annars á því að hringiða stjórnmála snýst allt of sjaldan um stöðu þeirra.

Frá mínum fyrsta degi sem ráðherra hef ég verið staðráðinn í því að ná fram grundvallarbreytingu á velferðarkerfinu. Breytingu sem setji börn og ungmenni í forgrunn. Fyrstu verk mín í embætti voru að hitta mikinn fjölda fólks sem hefur unnið að málefnum barna sem og notendur kerfisins. Allir sem vildu voru velkomnir á minn fund og fannst mörgum undarlegt að ráðherra skyldi opna sínar dyr á þennan hátt. Ástæðan er hins vegar einföld.

Ég er ekki sérfræðingur í þessum efnum. Ég var aftur á móti, líkt og við öll, einu sinni barn og vildi fá raunveruleg svör við því hvort breytinga væri þörf. Það var fróðlegt að heyra skoðanir fólks og reynslusögur og finna að allir voru sammála um að gera þyrfti róttækar breytingar. Í framhaldi af þessari nokkurra mánaða yfirferð var ég því kominn með tilfinningu fyrir stöðunni, ákvað að virkja sem flesta og setja formlega af stað stærstu endurskoðun í málefnum barna á Íslandi í lengri tíma.

Öll sú vinna hefur verið undir forystu þverpólitískrar þingmannanefndar sem skipuð var í upphafi vegferðarinnar og í góðu samstarfi við stýrihóp stjórnarráðsins í málefnum barna, Samband íslenskra sveitarfélaga auk fjölda fólks sem tók þátt í vinnunni í gegnum átta sérhæfða hópa. Niðurstaða þessa langa samtals er nú að bera ávöxt. Tillögur að nýju velferðarkerfi fyrir börn og ungmenni liggja fyrir. Því efni ég til ráðstefnu, í samvinnu við Landssamband ungmennafélaga, í Norðurljósasal Hörpu þann 2. október næstkomandi.

Ráðstefnan nefnist: „Breytingar í þágu barna“ en þar verða ofangreindar tillögur kynntar og einstaka þættir þeirra ræddir sérstaklega. Ráðstefnan hefst klukkan 8.30 og stendur til klukkan 15.00. Allar nánari upplýsingar er að finna á www.frn.is. Verið velkomin!

Höfundur er félags- og barnamálaráðherra




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×