Skoðun

Sjúkur í sykur, eða sykursýki

Teitur Guðmundsson skrifar
Það mætti halda, þegar við erum að horfa á einstaklinga sem glíma við þann erfiða sjúkdóm sem sykursýki er, að þeir hefðu einhvern sérstakan áhuga á sykri eða borðuðu hann óhóflega, en því fer auðvitað fjarri. Orðið er í raun mjög gott og lýsir krankleikanum við að vinna úr orkuefnum sem í daglegu tali eru nefnd sykur. Eðlilegra er í raun að tala um kolvetni sem eru hluti af grunnorkuefnum þeim sem líkaminn þarfnast og svona til einföldunar eru hinir kallaðir fita og prótein.

Við heyrum þessum orðum fleygt býsna oft en vitum flest hver ekki nákvæmlega hvað þau þýða né heldur í hvaða vörum hvað kann að leynast í sjálfu sér. Það breytist hratt þegar einstaklingar greinast með vanda þar sem ein meginstoð meðferðar er fólgin í að passa mataræði sitt. Það á til dæmis við um sykursýki af tegund 2. Við heyrum hana oft nefnda í tengslum við aðra sjúkdóma, sem áhættuþátt til dæmis fyrir hjarta- og æðasjúkdómum eða nýrnabilun, taugavanda og jafnvel blindu. Þá er orðið algengt að við tengjum saman offitu og líkurnar á að þróa sykursýki, sérstaklega á meðgöngu og þannig mætti lengi telja.

Sykursýki er eitt alvarlegasta og jafnframt að verða eitt algengasta heilsufarsvandamál í heiminum. Ef við skoðum tölurnar þá eru þær sláandi og hræða mann í raun og veru, vegna þess að meginvandinn á bak við þróun þessa sjúkdóms byggir á lífsstílsþáttum og neyslumynstri. Talið er að ríflega 400 milljón manns glími við sjúkdóminn á heimsvísu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, áætlar að tæplega 200 milljónir manna viti ekki af sjúkdómnum sem einnig er gríðarlega há tala. Einkenni geta komið fram hægt og rólega og einstaklingurinn finnur jafnvel lítið fyrir vandanum fyrr en hann er kominn á fleygiferð, en þá getur hann líka reynst lífshættulegur.

Ýmsar tölur eru til um það hversu margir látast af völdum sjúkdómsins á hverju ári, en áætlað er að í það minnsta 5 milljónir falli frá í heiminum af þessum orsökum. Ríki heims og einstaklingar eyða rúmlega 500 milljörðum dollara á ári í meðferð fyrir þá sem eru með slíka greiningu. Um helmingur þeirra sem deyja er yngri en 60 ára. Gert er ráð fyrir að á næstu 20 árum tvöfaldist fjöldinn. Það er því óhætt að segja að við glímum við faraldur.

En eins og ég kom inn á í upphafi hefur sykursýki ekki neitt að gera með neyslu á sykri í þeim skilningi, heldur er það svo að innkirtlastarfsemi okkar er veikluð eða biluð og því tekst ekki að vinna úr þeim næringarefnum sem við innbyrðum á eðlilegan hátt. Brisið leikur þarna lykilhlutverk en ákveðnar frumur í því framleiða insúlín sem er hormón og hefur það verkefni að hjálpa frumum að taka til sín glúkósa, en einnig að ýta undir forðasöfnun í lifrinni. Þá hefur insúlín talsverð áhrif á blóðfitu- og próteinefnaskipti okkar en einnig saltbúskap og gerir það þannig að einu mikilvægasta hormóni líkamans.

Sykursýki sem sjúkdómur er aftur á móti skilgreindur í tvær tegundir sem eru nefndar 1 og 2 og svo einnig það sem kalla má forstig. Þeir sem eru með tegund 1 framleiða ekkert insúlín, greinast yfirleitt ungir og eru 5-10% af öllum tilfellum. Ástæðan getur verið margvísleg, ættgengi, umhverfisþættir og veirusjúkdómar og oft vitum við ekki af hverju í raun. Þeir sem eru með tegund 1 þurfa að fá insúlín í sprautuformi alla jafna ævilangt. Hinn hópurinn, sem er margfalt stærri og fellur undir tegund 2, er sá þar sem framleiðsla á insúlíni er ekki nægjanleg, eða nýting þess skert. Ástæðurnar eru mjög margar en sú algengasta að talið er byggir á lífsstílsvanda, offitu, lélegu mataræði, lítilli hreyfingu, streitu og slíkum þáttum. Þó er þekkt að ákveðin ættlægni er til staðar auk þess sem ákveðnir sjúkdómar geta ýtt undir þróun slíkrar sykursýki.

Greiningin er einföld í báðum tilvikum, hún felst í læknisviðtali og blóðrannsókn sem allir ættu að fara í með reglubundnu millibili. Meðferðin á sykursýki af tegund 2 byggir á lyfjum í töfluformi og jafnvel insúlíni í erfiðum tilvikum en fyrst og fremst á að breyta og bæta lífsstíl viðkomandi einstaklings til hins betra í öllum tilvikum og gefast aldrei upp við það verkefni. Vanastjórnun og lífsstílsbreyting er ódýrasta og besta leiðin til að glíma við þennan tröllvaxna vanda sem við stöndum frammi fyrir í aukningu á þeim sjúkdómi á heimsvísu og því má aldrei gleyma.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×