„Það er vissulega ekki mikið upp úr því að hafa að skipta um raforkusala, eins og staðan er í dag þá erum við að tala um nokkur þúsund krónur á ári fyrir meðalheimili,“ segir Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs.
Aðspurður hvort það geti breyst ef þúsundir heimila ákveði að skipta yfir í ódýrasta kostinn segir hann svo vera. „Klárlega. En í dag eru þetta rosalega lítil útgjöld hjá heimilum, hvatinn því lítill til að skipta.“

Í reglugerðardrögum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins sem birt eru í samráðsgátt stjórnvalda er lögð áhersla á að tryggja rétt neytenda á hverjum tíma til að velja sér raforkusala og auðvelda fólki að skipta um raforkusala. Fram kom í skýrslu sem verkfræðistofan Efla gerði fyrir ráðuneytið í vor að lítil samkeppni sé í raforkusölu til einstaklinga og lítilla fyrirtækja. Til dæmis hafi aðeins 370 heimili af 140 þúsund skipt um raforkusala árið 2017. Í dag eru flest heimili með þann raforkusala sem þau voru með áður en það var frjálst að skipta.
Rafmagnskostnaður heimilis skiptist í tvennt, annars vegar dreifingu sem ekkert er hægt að breyta og sölu sem hægt er að skipta um kostnaðarlaust. Í dag er mjög auðvelt að skipta um raforkusala, hjá bæði Íslenskri orkumiðlun og Orkubúi Vestfjarða er hægt að gera það í gegnum einfalda umsókn á netinu.
Sigurður segir þó óvíst hversu mikið verðið geti lækkað ef neytendur fara að elta ódýrasta kostinn. „Við vitum ekki hvort hægt er að lækka lægsta verðið, það er eðli vörunnar að verðin séu mjög þétt,“ segir Sigurður og nefnir sem dæmi bensínverð. Raforkusalar þurfa litla yfirbyggingu, í raun þarf ekki að gera neitt nema semja við raforkuframleiðendur, þar sem Landsvirkjun er langstærst, og fara svo að selja rafmagn í smásölu.
Sigurður segir engan mun á þjónustu eftir því við hvern er skipt. „Þú ert ekki háður eða bundinn neinum sala. Þú færð nákvæmlega sömu vöruna ef þú skiptir yfir í annan raforkusala.“