Asíubúum, sérstaklega Kínverjum og Taívönum, hefur fjölgað í haust þegar skoðað er það hlutfall sem keyrir í gegnum Vaðlaheiðargöng.
Þetta kemur fram í tilkynningu Vaðlaheiðarganga hf. Kínverjar eru í þriðja sæti og Taívanar í fimmta síðustu sjö daga.
Göngin voru opnuð í ársbyrjun og síðan þá hafa Bandaríkjamenn verið fjölmennasti hópurinn, rétt eins og á Keflavíkurflugvelli. Í öðru sæti koma Þjóðverjar og í þriðja Frakkar.
Eins og gefur að skilja var hlutfall erlendra ferðamanna hærra yfir sumarmánuðina en það virðist sem svo að Asíubúar heimsæki landið frekar til að sjá norðurljós.
