Skoðun

Tollfrelsi EES og álið

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
Í ár fagnar álframleiðsla á Íslandi 50 ára afmæli, en hálf öld er liðin frá því að álverið í Straumsvík hóf starfsemi. Framleitt magn var ekkert í líkingu við það sem framleitt er á Íslandi í dag, en með árunum jókst framleiðsla áls í Straumsvík og víðar á landinu og er framleiðslan á Íslandi í dag tæp 900 þúsund tonn á ári.

Mikilvægi álframleiðslu fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag er ótvírætt. Áliðnaðurinn skapar Íslandi ríkar gjaldeyristekjur og mikið af hátekju- og sérfræðistörfum. Hvort tveggja er mælikvarði á gæði þeirra starfa sem tiltekinn iðnaður skapar.

Á síðasta ári fluttu íslensku álverin út afurðir fyrir 220 milljarða króna. Stærsti markaður álveranna er Evrópa. Innflutningur inn á Evrópumarkað frá löndum utan markaðarins er tollskyldur upp á fjögur til sjö prósent, en sökum aðildar Íslands að EES-svæðinu er Ísland fyrir innan tollamúrana.

Álframleiðsla nýtur góðs af EES-aðild

Í nýlegri skýrslu starfshóps um EES-samstarfið kemur fram að álframleiðsla á Íslandi njóti mjög góðs af aðild Íslands að EES. Í skýrslu starfshópsins kemur m.a. fram að „sameiginlegi EES-markaðurinn sé markaðssvæði íslenskra álvera. Þau eru þar innan tollamúra, en tollar á ál sem flutt er inn á evrópska efnahagssvæðið eru á bilinu 4-7%.“

Íslenskt efnahagslíf á mikið undir því að hér séu til staðar öflugar útflutningsgreinar og er stóriðjan ein þriggja undirstöðuatvinnugreina Íslendinga ásamt ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Stóriðjan telur fyrir um 15% útflutningstekna Íslendinga og kaupir um 80% af allri framleiddri orku hér á landi.

Ör tækniþróun undanfarin ár hefur gert það að verkum að stærð álvera skiptir meira máli upp á hagkvæmni þeirra en talið var á árum áður. Þess vegna er það stóriðjunni mikilvægt að vera áfram innan tollamúra EES-svæðisins, og án EES-samningsins væri staða álframleiðslunnar, sem hefur byggt upp traustan grunn íslensks efnahagslífs í hálfa öld, önnur og verri en við þekkjum hana í dag.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×