Sprenging varð í nótt í írönsku olíuflutningaskipi undan ströndum Sádi-Arabíu að sögn íranskra yfirvalda.
Skipið, sem er í eigu íranska ríkisolíufélagsins, var tæpa 100 kílómetra frá hafnarborginni Jeddah þegar atvikið átti sér stað en svo virðist sem gat hafi komið á báða geymslutanka skipsins og lak olía um tíma út í Rauðahafið.
Engin slasaðist, en Íranir fullyrða að eldlaugum hafi verið skotið á skipið og því sé um hryðjuverk að ræða. Þeir segjast hafa komist fyrir lekann úr skipinu og að eldur hafi verið slökktur.
Afar mikil spenna er nú á milli Írana og Sáda en í síðasta mánuði var gerð árás á olíustöð í Sádi-Arabíu sem Íranir eru sakaðir um að hafa framkvæmt.
