Skoðun

Út klukkan 14:56

Jóna Þórey Pétursdóttir skrifar
Í dag geng ég út klukkan 14:56. Í dag er dagur til að sýna samstöðu kvenna og þakka fyrir baráttu þeirra sem á undan okkur hafa komið.

Í 99 ára sögu Stúdentaráðs Háskóla Íslands er ég fimmtánda konan til að vera kjörin til forystu í Stúdentaráði. Af þessum fimmtán konum hafa tíu þeirra leitt ráðið á síðustu 15 árum. Það er því ljóst að breytingar eru að eiga sér stað og þá sérstaklega á allra síðustu árum en sú staðreynd að hlutfall kvenna sem hefur leitt hagsmunabaráttu stúdenta við Háskóla Íslands sé aðeins 15% segir sína sögu. Fyrirmyndir eru svo mikilvægar og kvennafrídagurinn er hvað besta tilefnið til að fagna þeim. Það var einmitt á fyrsta kvennafrídeginum sem móðir mín fékk hvað mestan innblástur til þess að standa upp og berjast fyrir sínum réttindum, sem eru svo núna orðin mín réttindi. Henni, forverum mínum í starfi, konum sem hafa tekið slaginn hingað til og þeim sem halda því áfram þakka ég kærlega fyrir.

Á sama tíma og er mikilvægt að þakka fyrir söguna er nauðsynlegt að finna leiðir til að líta fram á veginn og halda baráttunni áfram því enn er af nógu að taka.

Kynjuð orðræða, skortur á sýnileika kvenfyrirmynda, fræðakonum, vísindakonum er dæmi um atriði sem þarf að bæta í Háskóla Íslands og áfram mætti telja. Stúdentaráð setti fram hugmyndasöfnun og ábendingabanka sem má finna hér þar sem stúdentar geta bent á hvað má betur fara þegar kemur að jafnréttismálum í Háskóla Íslands. Jafnréttisátakið er til þess gert að færa hagsmunabaráttu stúdenta nær öllum stúdentum í HÍ um leið og við fáum vonandi betri sýn á hvernig stúdentar meta stöðu jafnréttismála í skólanum og hægt verður að vinna úr því. Hugmyndasöfnunin hófst í gær og stendur yfir til 6. nóvember. Eftir það er unnið úr niðurstöðunum og kosið um forgangsröðun ábendinga.

Stöndum saman og göngum út klukkan 14:56.

Til hamingju með daginn konur!

Höfundur er forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×