Innlent

Óvenjulegt að nóróveiran komi upp á mörgum stöðum á sama tíma

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Baldur Hrafnkell
„Það er svolítið óvenjulegt að þetta sé að koma upp á svona mörgum stöðum á sama tíma en auðvitað getur það gerst,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um tvær nóróveiruhópsýkingar sem komið hafa upp að undanförnu.

Ungbarnaleikskóla í Grafarvogi var lokað í síðustu viku eftir að nóróveira kom upp. Mörg börn veiktust og þurftu sum að leita á barnaspítala Landspítalans til aðhlynningar. Þá greindi mbl.is frá því í dag að tíu til fimmtán prósent af íbúum Hrafnistu í Hafnarfirði hafi greinst með veiruna.

„Nóróveira er alltaf meira og minna viðloðandi veira en svo getur hún komið svona upp og valdið hópsýkingum. Ástæðan er sú að hún er mjög smitandi, það þarf lítið magn af henni. Nákvæmlega af hverju hún er að gjósa upp núna er óljóst,“ segir Þórólfur. Það sé nú í skoðun hjá viðkomandi heilbrigðiseftirliti.

Nóróveira er bráðsmitandi og berst auðveldlega manna á milli. Þannig var til dæmis aðeins helmingur af þeim 53 börnum sem skráðir eru á leikskólann Ársól í Grafarvogi í skólanum föstudaginn 18. október. Þá viku voru mikil veikindi í skólanum. Segir Þórólfur að ákveðið verklag fari af stað þegar nóróveiran blossar upp.

„Það er ákveðið verklag um lokanir og hreinsanir til þess að reyna að sótthreinsa og koma í veg fyrir smit. Veiran getur lifað á yfirborði hluta og valdið þannig sýkingum. Það þarf að gæta vel að öllu hreinlæti,“ segir Þórólfur en hægt er að nálgast helstu upplýsingar nóróveiru og forvarnir gegn henni á vef Landlæknis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×