Nokkur hús í tveimur götum í Njarðvík voru rýmd nú síðdegis eftir að sprengiefnið fannst á iðnaðarsvæði í íbúðarhverfi þar. Ekki er ljóst að svo stöddu hversu lengi rýmingin verður í gildi.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu verður sprengiefnið sett í flutningabíl og það flutt á varnarsvæðið, líklega á níunda tímanum í kvöld. Efnablöndunni sem var hellt yfir það er ætlað að gera það óvirkt.
Sprengiefnið er talið hafa verið lengi á staðnum þar sem það fannst. Það var í litlum gám ofan á stærri gámi sem var talinn óstöðugur. Ráðist var strax í aðgerðir þar sem óttast var að stærri gámurinn gæti látið undan.